28 ára

Föstudagur
Um helgina átti ég afmæli og í tilefni af því langaði mig að gera það sem mér finnst skemmtilegast, nefnilega að ferðast og skoða nýja hluti, prófa nýja hluti, smakka nýja hluti og sjá nýja hluti. Ég heyri oft nýja hluti frá Kormáki, svo það er lúxus sem ég fæ hvar sem er.

Við lögðum af stað úr bænum á föstudaginn, eftir góðar fjörtíumínútur hjá föðurömmu minni og afa. Þar var föðursystir mín með sonarson sinn í heimsókn. Við hlógum mikið og ég náði að tengjast þessum litla frænda mínum enn betur en seinast þegar ég hitti þau. Alveg ferlega fallegur lítill snúður og þvílíkur sólargeisli þegar hann brosir. Næstum eins fallegur og hann Kormákur minn hehehe.

Við í Raufarhólshelli2

Ferðin var byrjuð og okkur leið vel. Leiðin lá um þrengslin en þar er Raufarhólshellir. Kormákur var svakalega spenntur að fara inní hellinn með sitt eigið höfuðljós, að hann hrasaði næstum um einn hraunbitann þarna. Reyndar þurftum við ekki að nota höfuðljósin neitt því það voru stór op yfir hellinum sem birtan skein innum. Þessi hellir var ferlega skemmtilegur og ég mæli með honum fyrir fólk með krakka. Ég mæli einnig með því að fólk noti hanska þar inni því stundum þarf að nota hendurnar til að styðja sig við, til dæmis þegar maður fer niður í hellinn.

Kor í Raufarhólshelli
Eftir hellinn ætluðum við að kíkja á Jarðskjálftasafnið í Hveragerði en við lögðum seinna af stað út úr bænum en upphaflegt plan gerði ráð fyrir svo við ókum beint uppí Reykhóla eftir hellaleiðangurinn. Með stuttu óvæntu stoppi við Kerið.

Við hjá Kerinu

Gistiheimilið sem við vorum á heitir Húsið. Það var ódýrasta gistingin í nálægð við Laugarvatn sem ég fann á booking.com. Við höfðum aðgang að eldhúsi þarna og fríu WiFi sem var bara alveg ágætis net. Eldhúsið var heimilislegt og kósí nema með aðeins fleiri borðstofuborð en gengur og gerist á venjulegum heimilum (enda var þetta gistiheimili). Aðrir gestir sem voru þarna heilsuðu okkur, og við þeim. Andinn var góður og andrúmsloftið kyrrlátt og friðsælt. Ég mæli með þessu gistiheimili fyrir barnafjölskyldur eða fólk sem vill komast burt úr stressi borgarinnar.

Snapchat-5601862992772489720

Laugardagur
Klukkan var rétt skriðin yfir miðnætti og 7. maí formlega genginn í garð, ég byrjaði afmælisdaginn minn á því að æla öllu sem ég hafði borðað um daginn. Salatinu, bingókúlunum og jafnvel vatninu. Ég vil meina að triggerinn hafi verið munnskolið.

Það er ekki af ástæðulausu að ég falsaði miða frá mömmu til tannkennarans í Vesturbæjarskóla sem gaf öllum flúor. Mér varð flögurt af því. Mér verður enn flögurt af því. Þegar ég bursta tennurnar tvisvar á dag. Sem sagt kvölds og morgna, þá fæ ég verk í tennurnar. Tönnunum mínum verður kalt við minnsta tilefni. Þegar ég borða súkkulaði, þá verður þeim kalt. Þegar ég er úti og læt það eftir mér að brosa, þá væla tennurnar yfir kulda. Beauty is pain er málsháttur saminn um tennur.

Fljótlega eftir að við vöknum á laugardeginum fengum við okkur morgunmat en eftir það var slökun í leynilauginni (secret lagoon). Eins og svo margt á Íslandi þá fannst mér aðgangseyririnn frekar dýr, svo dýr að ég fer líklega ekki aftur í þessa laug, því miður. Það ætti að vera hægt að velja. Borga fyrir skáp og þjónustu eða geyma allt útí bíl og skipta um föt undir berum himni, sem sagt; búningsklefi eða ekki búningsklefi.
Leynilaugin er mjög falleg og mjög notaleg. Ég mæli með henni sem nokkurs konar lúxus treatment, eða sem umbun fyrir góðan árangur eða því að ná settum markmiðum.
Upphaflega ætluðum við í Reykhólasundlaugina en vegna viðgerða var hvorki hægt að nota rennibrautina né slaka á í heitapottinum.

Secret lagoon1

 

Dýragarðurinn Slakki er ferlega skemmtilegur, hann kom á óvart. Þangað var ferðinni heitið beint eftir leyni-slökunina. Við sáum pínulítil dýr, kettlinga og kanínur. Kínverskar silkihænur og alls konar framandi og litríka fugla. Gestir voru þarna með hundana sína og innst í garðinum (sem var ekki langt frá innganginum) var dásamlegt leiksvæði fyrir yngstu börnin. Inni þar sem hægt var að kaupa sér snæðing, ís, samlokur eða borgara og franskar, var mini golf og alls konar skemmtileg spil fyrir miðjukrakkana á aldrinum frá átta plúsmínus og uppí um það bil áttatíuogátta, plúsmínus.

 

Bleikur bíbíKormákur vildi helst vera þarna fram á rauða nótt og jafnvel lengur svo við fórum marga hringi og sáum allt mörgum sinnum. Það var samt ekki fyrr en á lokahringnum að hann sýndi mér músaherbergið, þar sem voru líka lítil og furðuleg svín og kalkúnar (held að þetta hafi verið kalkúnar) og inn af því herbergi var fiskaherbergi með litlum og aðeins minni fiskum. Einn fiskurinn var stór. Hann spjallaði við mig en fór svo snögglega í fílu. Ég hef aldrei skilið fiska.

Reyndar er dýragarðurinn stærri en við fengum að sjá að þessu sinni en af einhverjum ástæðum var hluti af garðinum lokaður. Ástæðuna kann ég ekki.

Ég var sátt og sæl þegar ég gekk í burtu frá dýragarðinum og það var Kormákur líka. Við vorum sammála um að þangað skyldum við mæta aftur og helst sem fyrst.

Þegar heim var komið fengum við okkur instant pasta carbonara og átum það með bestu lyst í kvöldsólinni. Þetta var jú afmæliskvöldið mitt og því vel við hæfi að ‘fara út að borða’. Eftir matinn fórum við bakvið húsið í fótbolta. Um það bil þegar sólin var að setjast og skuggaboli var byrjaður að narta í nebbana okkar fórum við inn, fengum okkur smá snakk, smá nammi og kveiktum á teiknimynd. Góður dagur var að kveldi kominn.

 

Sunnudagur
Veitingastaðurinn Friðheimar ræktar tómata allt árið um kring en árið 1995 keyptu Rangt nafnhjónin Helena og Knútur gróðurhús á þessum slóðum, síðan þá hefur rekstur þeirra vaxið jafnt og þétt. Saman eiga þau fimm börn sem öll hjálpa til á bænum. Einnig er hægt að fá að fara á hestbak þarna. Við Kormákur létum það vera, það er ekki hægt að gera allt. Hahaha djók, við höfðum bara ekki nógu mikinn áhuga á því að fara á hestbak.

Þó ég sé ekkert of hrifin af tómötum þá fannst mér eitthvað heillandi við þennan stað. Ég var jafnvel spennt fyrir því að smakka eitthvað tómata eitthvað, svo ég pantaði borð fyrir okkur Kormák á sunnudaginn. (Ég pantaði á laugardaginn að við skyldum snæða þarna á sunnudaginn).

Herberginu í Húsinu áttum við að skila um það bil klukkan tólf um hádegisbilið en það var ekkert stress á því. Samt sem áður vildi ég skila því ekki seinna en um hádegið því ég vildi nýta daginn. Klukkan var tólf og við mætt í Friðheima. Eigandinn, Knútur, tekur á móti okkur af einlægri gestrisni og fylgir okkur til borðs. Á borðinu er nafnið mitt; Svana Dögg. Ég brosi bara og hugsa til drykksins sem ég fékk mér á Starbucks á flugvellinum á Spáni í seinasta mánuði. Starbucks klúðraði væntingum mínum þegar þau skrifuðu nafnið mitt rétt. Mér leið eins og ég hefði verið féflett, þar til ég smakkaði drykkinn sem ég pantaði. Hólí-effin-kræst hvað hann var óþolandi góður. Ég man ekkert hvað drykkurinn heitir, frappóeitthvaðdeliss. *slef*

Jæja, jæja, nú ætlum við að tala aðeins um tómata. Þegar við settumst við borðið í Friðheimum, þuldi Knútur upp matseðilinn sem var ekki mjög langur en samt alveg nógu langur. Tómata þetta og tómata hitt. Ýmislegt með tómötum og svo var vatnið okkar með litlum tómötum í. Ég fékk mér tómata tortíu en Kormákur fékk sér tómatasúpu og brauð með. Hann smakkaði hjá mér og ég hjá honum. Það var einróma skoðun hjá okkur að maturinn væri hreinasta lostæti, jafnvel þó að maturinn væri að mestu leyti bara tómatar.

Súpa og brauð   Snapchat-5157776916690083962   Tómataís
Eftir matinn var okkur bent kurteislega á að te og kaffi væri innifalið í verðinu (sama hvað við hefðum pantað) en ég brosti bara vandræðalega og sagðist vera mikið spennt fyrir því að smakka ísinn þeirra. Jú, mikið rétt. Það var tómataís. Ég gerði ráð fyrir því að ísinn væri bragðvondur en hann var þar bara alls ekki neitt. Við Kormákur rífumst um að borða sem mest. Og fyrst við vorum byrjuð að prófa nýja og klikkaða hluti fannst okkur bara skynsamlegt að taka allavega einu skrefi lengra og bæta ferskri basilíku útí ísinn. Því ekki það? Ótrúlegt en satt þá var það bara alveg ljómandi gott.
Tómataís með eða án basilíku… bæði betra.

Friðheimar10

Starfsfólkið í Friðheimum var dásamlegt. Umhverfið var bjart og fallegt og lyktin var auðvitað fersk, enda ekkert annað en tómataplöntur þarna.
Það hefur kannski komið óbeint fram í textanum hér að ofan að ég mæli eindregið með því að fólk geri sér ferð í Friðheima til að smakka tómatagúmmelaðið.

Þegar ísinn var búinn borguðum við og fórum útí bíl. Kormákur var að sturlast útaf hunangsflugunum sem sveimuðu í kringum okkur inní Friðheimum. Hann fékk vægt spennufall þegar við vorum komin út. Greyið.
Klukkan var ekki nema rétt rúmlega eitt svo það var nægur tími til að fara í laugina á Laugarvatni. Hún heitir Fontana. Fáránlegt nafn. Ég veit ekkert almennilega hvernig ég nota það í setningum.

– Ég er í Fontana.
– Uuuuu já, hvað er það?
– Æj, það eru svona pottar og svona eitthvað með vatni í, sem er eins og sundlaug en er samt ekki sundlaug. Þetta er svona til að slaka á en samt er hægt að leika sér þarna ef þú ert með börn. Svo er þarna fimm metra laug ef þú vilt synda en það er samt ekki beint hægt að synda þarna. En þú getur horft á Laugarvatn, þúst vatnið sjálft.

Fontana1

Nei, ég veit ekkert hvernig ég á að tala um þetta Fontana. Þetta er subbulega dýrt en þjónustan er til fyrirmyndar og afgreiðslufólkið er vinalegt. Það er hægt að fara beint frá baðsvæðinu út að Laugarvatninu sjálfu og útí það, eins langt og hver og einn vill og nennir eða sitja þar á bryggju/verönd með fæturnar dinglandi útí vatninu.
Við Kormákur skemmtum okkur konunglega þarna og ég mæli alveg eindregið með þessu, hvað sem þetta er en ég mun líklega ekki splæsa aftur í þennan lúxus.

Mér finnst alltaf gaman að keyra um Laugarvatn en tíminn leið og mamma vildi fá okkur í mat á sjálfan mæðradaginn, auk þess var hún með afmælispakka handa mér sem þoldi ekki meiri bið. Frá Laugarvatni keyrðum við í áttina að Þingvöllum en fyrir tilviljun uppgötvuðum við Laugarvatnshelli, sem er ekki skráður á gúggúl maps (ennþá). Við beygðum því útaf veginum, settum upp höfuðljósin og kíktum á þennan helli. Á veggina í kringum hellisopið var búið að rissa nöfn en mest fannst mér vera um bókstafsreikning. A+B og G+L. Stundum voru fleiri bókstafir eins og EVA+DON. Að sjálfsögðu skrifaði ég Kormákur. Að sjálfsögðu.

Snapchat-3665349302252654237

Snapchat-6598583066975935731

Hellirinn var mjög lítill svo við fórum bara uppá fjallið líka. Það var sjúklega stressandi því hliðin sem við fórum upp var eitt stórt grjótslys. Við hefðum líklega getað hrasað hvenær sem var, en við gerðum það ekki. Kormákur fór rosalega varlega og stappaði fætinum fast nokkrum sinnum í hverju skrefi til að tryggja að hann væri ekki að fara að stíga á lausan stein. Ég var stressuðu og spennt í bland yfir þessu príli okkar en þegar við vorum komin uppá topp þá var þetta svo mikið þess virði. Við vorum uppá toppnum í smá stund að skoða og brjóta steina og taka nærmyndir af gróðri áður en við gengum niður.

DSC00369
Niðurleiðin gekk mun betur en uppleiðin. Þetta var góður endir á góðri helgi, en bíðum nú aðeins við. Ferðin var ekki búin! Við áttum eftir að keyra í gegnum Þingvelli. Ó MÆ GOD hvað ÞAÐ er fallegt pleis! Kormákur var ekki eins heillaður og ég en það er svosem eðlilegt. Ég var ekki eins heilluð og pabbi, af náttúrunni, þegar ég var á aldur við Kormák, 6 ára. Það tók mig mörg ár að læra að meta náttúrufegurðina eins og ég geri í dag. Kannski mun ég kunna ENN BETUR að meta hana þegar ég verð komin á sama aldur og pabbi. Kannski.

Jurtir á fjallinuÞegar heim (til mömmu) var komið beið okkar uppáhalds maturinn minn; sem sagt allur matur sem mamma og maðurinn hennar elda. Í þetta sinn eldaði hann bara. Ég veit ekkert hvað mamma var að gera því yfirleitt elda þau saman. Gamla settið.

Fyrir matinn opnaði ég pakkann frá mömmu, manninum hennar og hundinum á heimilinu, Mola. Pakkinn var appelsínugulur og kortið var frá Sólheimum Grímsbæ. Mjög fallegt kort.
Inní pakkanum voru kósíföt, alveg eins og mamma á. Svo nú getum við píurnar verið eins klæddar á kvöldin, þegar enginn sér okkur. Hahahaha. Og við getum drukkið samskonar vökva úr eins brúsa því ég fékk alveg eins brúsa og mamma á. Þetta gladdi mitt litla hjarta ógurlega mikið. Ég sagði henni reyndar að mig langaði rosa mikið í nýtt hjól í afmælisgjöf en kósíföt eins og mamma á var númer tvö á óskalistanum.

Við Kormákur fórum aðeins of seint að sofa þetta sunnudagskvöld og sváfum svo allhressilega yfir okkur á mánudeginum.

Já, svona er nú tilveran margbreytileg og yndisleg. Ég get ekki beðið eftir næsta ferðalagi…

Snapchat-1671551547990722035

Author: svavs

positive, inspired, happy,