Af hverju er ég að þessu?

Dagana 15.-17. júní 2016 mun fara fram WOW Cyclothon. Keppni þar sem lið eða einstaklingar hjóla hringinn í kringum landið á fáránlega stuttum tíma. Liðaliðin fá 72 klukkustundir en einstaklingsliðin fá 84 klukkustundir. Helsti munurinn á því að vera í liði og að fara þetta ‘sóló’, er að lið þurfa að gefa allt í allan tíman en ‘sóló’ keppendur þurfa bara að ekki gefast upp!

wowísland

 

Þar sem ég er ekki mikil keppnismanneskja kom það aldrei til greina að fara í lið og hefur það verið draumur hjá mér í ansi langan tíma að taka þátt í þessarri keppni. Nú er komið að því. Í ár er árið. 2016.

Það má segja að ferðalagið sé byrjað því undirbúningurinn er í rauninni mun umfangsmeiri en keppnin sjálf. Það þarf að skipuleggja allt, æfa sig vel, finna hentuga bílstjóra sem maður treystir; allavega einn sem kann á hjól, ef eitthvað skyldi bila eða fara úrskeiðis, einn sem kann á þig og getur notað ýmsar aðferðir við að plata þig til að halda áfram og svo má þriðja manneskjan bara ekki vera leiðinleg eða illa lyktandi. Það þarf að finna orkugel og orkumikinn en léttan mat sem fer vel í magan og það er auðvitað mismunandi eftir fólki hvað fer vel í magan á hverjum. Það þarf að finna sér sponsora, ef maður ætlar ekki að eyða aleigu sinni í allt heila klabbið. Og svo framvegis.

Bílstjórarnir mínir eru æðislegir! Vægt til orða tekið. Jón Eggert er vanur ultrahjólari útí Flórída, hann er sá sem kann á hjólið. Sóley er systir mín, hún kann á mig og Art er ljósmyndari sem er hvorki leiðinlegur né illa lyktandi. Eða, ég er nokkuð viss um að hann sé ekki illa lyktandi. Þessir einstaklingar hafa aldrei hisst né talað saman svo það verður spennandi út af fyrir sig í keppninni sjálfri. En þetta er allt fólk sem ég treysti og fíla í tætlur. Sérstaklega systir mín, það toppar hana engin! Kannski ég en …

Ég hef verið spurð að því af hverju ég ætli að taka þátt í þessarri keppni og ég hef oft spurt mig að því sjálf. Svarið er enn doldið óljóst en það hefur eitthvað með það að gera að ögra sjálfum sér, setja sér bilað markmið og vinna að því. Mér finnst alveg skelfilega gaman að hjóla og mér finnst Ísland vera alveg sjúklega fallegt land, alveg geðsjúklega fallegt land. Það eru engin orð sem mér finnst lýsa náttúrufegurð Íslands nógu vel. Ísland er bara fallegt!

20151012_153155

Jú ég hef fengið bakþanka og kvíðaköst beintengd keppninni en alltaf þegar það gerist hugsa ég til þeirra sem styðja við bakið á mér. Án bílstjóranna gæti ég þetta ekki. Án systur minnar væri þetta líklega erfiðara en RAAM. Aldrei grunaði mig það hversu notaleg áhrif það hefur á mig að fá fyrirtæki til að styrkja mig. Eitt fyrirtæki sagði nei takk en þrjú hafa sagt já takk. (Þeir sem vilja vita hvaða fyrirtæki þetta eru verða að bíða þar til í keppninni sjálfri eða fylgjast með mér á snapchat) Mörg hafa ekki svarað mér en það er víst algengara að fá ekkert svar. Ég er að rifna úr þakklæti. Auk þess hefur það hvetjandi áhrif á mig þegar heil fyrirtæki vilja veðja á mig. Hana litlu Svövu Dögg. Ég hef ekki afrekað neitt og get því ekki sannfært neinn um að ég klári hringinn. Þó ég sé fyrst og fremst að gera þetta fyrir mig þá er ég eiginlega að gera þetta fyrir marga aðra líka. Fyrir bílstjórana þá tek ég þessarri ákvörðun alvarlega því þau eru að nota sinn frítíma til að taka þátt í þessu með mér. Sponsorarnir mínir ætlast til að ég geri mitt besta svo þeir líti ekki illa út. Augljóslega. Annað væri algjör óvirðing af minni hálfu.

Ef ekki væri fyrir þessa aðila þá gæti ég ekki tekið þátt en það er líka útaf þessum aðilum sem ég get ekki hætt við, sem er oft mjög freistandi þegar ég fæ kvíðaköst. Og ef ég get ekki hætt við þá er eins gott að ég æfi mig bara vel og nýti þetta tækifæri til að læra á sjálfa mig. Þetta er svo sannarlega spennandi verkefni.

Það sem ég hef fengið út úr þessum undirbúningi er margt, meðal annars hef ég kynnst sjálfri mér enn betur og kemst alltaf betur og betur að því hvað ég er reglulega skemmtileg manneskja. Auðvitað leifi ég ekki hverjum sem er að sjá þann eiginleika því ég gæti hreinlega ekki sinnt öllum þeim sem vildu vera vinir mínir. Það er hálfgert basl að sinna þeim vinum sem ég á núþegar og það er ekki vegna þess að þeir eru ómögulegir á nokkurn hátt heldur vegna þess að ég þarf mikinn tíma fyrir sjálfa mig, ég er sóló sál. Hehe, náðiru þessu? Þetta var svona hálfgerður orðaleikur *hlægjandi-broskall*.

egogvinur

Ég hef ekki bara kynnst sjálfri mér betur, sem manneskju og frábærum húmorista, ég hef einnig lært á líkamann minn. Ekki 100% en meira en ég kunni áður, sem er æðislegt. Ég drekka meira vatn, ég er farin að borða hafragraut á morgnana, ég kynntist creatine. Það á að auka úthald og vöðvastyrk til dæmis. Það er bæði bragðlaust og ógeðslega bragðvont, jaÁhh, gerir aðrir betur! Þvílíkur viðbjóður EN ég finn mun á mér eftir að ég byrjaði að gúlpa þessu í mig.

Eins og einhverjir vita þá er ég doldill rebel í mér. Ef ég ætla að klára Gran Fondo, þá ligg ég uppí rúmi. Ef ég ætla að liggja uppí rúmi, þá klára ég Gran Fondo. Þegar maður er svoleiðis þá eru oft góð ráð dýr, nema hvað. Ég sagði við sjálfa mig um daginn, “Jæja Svava mín, því meira sem þú hreifir þig því meiri ís máttu fá þér í dag!”. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar (þó ég hafi ekki ætlað að glóða ísinn) og ég fór út að skokka. Þegar það var búið, sagði systir mín mér að gera 100 hnébeygjur. Þegar 100 hnébeygjurnar voru búnar fékk ég mér salat því mér leið þannig. Eftir salatið og nokkur snappchat vídjó leið mér alveg ótrúlega vel. Ég var fersk og orkumikil svo ég hugsaði að eitt skokk í viðbót mundi nú varla drepa neinn, svo ég fór aftur út að skokka. Nema hvað! Nú langaði mig bara ekkert í ís. Mig langaði að langa í ís en löngunin í ísinn sjálfan var farin. Og hvað haldiði?! Jú jú, um kvöldið fór ég í sund, heitapottinn og gufuna. Glöggir lesendur eru eflaust búnir að sjá öfugu sálfræðina sem ég notaði þarna á mig.

Því meira sem ég hreyfi mig, því meiri ís má ég fá. Alveg sjálfsagt mál að verðlauna sig með gamla ísnum úr Ísbúð Vesturbæjar. Ekkert samviskubit og ekki neitt, bara unaðsleg gleði og eintóm hamingja. NEMA HVAÐ! Því meira sem ég hreyfi mig, því minna langar mig í ís, nammi, kleinuhringi og allt það sem ég gat áður borðað!

teikn

Til að gera langa sögu stutta þá er ég að fara að taka þátt í wow cyclothon keppninni sem sóló brjálæðingur. Ég er bæði stressuð og spennt fyrir keppninni en fyrst og fremst montin yfir því að loksins sé þetta að fara að gerast. Í alvöru skiluru!!??

Hl sjitt….

Author: svavs

positive, inspired, happy,