ALADDÍN OG KETILLINN

Endur fyrir löngu bjó ungur drengur með foreldrum sínum í litlu þorpi í austur í löndum. Hann var einkabarn og þurfti því sjaldan að deila nokkru með öðrum. Foreldrar hans voru báðir með vinnu og þau voru vel skipulögð svo lífið gekk alveg bærilega þrátt fyrir töluverða fátækt. Þessi drengur hét Aladdín, hann var nú orðinn sextán ára en eins og stundum vill verða gera slysin ekki boð á undan sér. Faðir hans varð

fyrir vinnuslysi og lést. Nú þurfti móðir hans að vinna tvöfalt til að halda heimilinu gangandi því í þá daga var ekki búið að finna upp ekknabætur. Aladdín hafði ekki haft mikla ábyrgð fram að þessu né nein sérstök verkefni og ekki nennti hann að sinna skólanum vel. Foreldrar hans höfðu ekki lokið skóla og honum fannst þau alltaf hafa það alveg ágætt. Gefur að skilja.

Dag nokkurn er Aladdín var á gangi með félaga sínum mæta þeir manni sem kveðst vera föðurbróðir hans. Aladdín verður undrandi því hann hafði ekki heyrt þess getið að eiga frænda í föðurlegginn. Ókunni maðurinn var einkar vinalegur svo Aladdín fylgdi honum heim að húsi móður sinnar.
Vitanlega varð móðirin líka furðulostin en þóttist svo muna að maður sinn heitinn hefði nefnt það einu sinni að hann ætti mögulega bróður. Nýjir fjölskyldumeðlimurinn varð að láta sér nægja að sofa í skemmunni því annan stað gátu mæðginin ekki boðið uppá. Um kvöldið eldaði hann handa þeim dýrindis veislumat sem hann hafði sjálfur komið með og sagði þeim svo frá því sem á daga hans hafði drifið undanfarin ár og hvers vegna hann hefði ekki látið í sér heyra fyrr en einmitt nú, eftir fráfall bróður síns.

Sannleikurinn er sá að þessi svokallaði nýji fjölskyldumeðlimur var alls ekkert skyldur þeim. Hann hafði séð Aladdín á flandri um þorpið fyrir nokkrum vikum og ákveðið að fylgjast með honum til að athuga hvort hægt væri að nota hann í voðaverk. Og þar sem Aladdín hafði ávallt náð að bola sér undan skylduverkum og ábyrgðarhlutverkum hafði hann alls enga ábyrgðartilfinningu og ofsalega litla skynsemi. Ókunni maðurinn hugsaði sér gott til glóðarinnar og sofnaði með illskulegt bros á vör.

Daginn eftir er móðir Aladdíns var farin til vinnu ræddi ókunni maðurinn við Aladdín, hann sagðist vilja sýna honum nýja staði í þorpinu, eins konar leynistaði. Leist nú Aladdín vel á og það hlakkaði í honum, tilhugsunin um að segja vinum sínu frá nýju leyndarmáli, þeir myndu svo sannarlega fyrirgefa honum fyrir klandrið sem hann hafði komið þeim í um seinustu helgi. Bókað mál!

Eftir morgunverðinn gengu þeir af stað í átt að skóginum en þangað fór ekki nokkur maður svo Aladdín varð ennþá spenntari, þetta hlyti að vera afar merkilegt leyndarmál.
Rétt uppúr hádegi komu þeir að stóru tré. Það var óskaplega fagurt en við rætur þess lá stór flatur steinn. Ókunni maðurinn bað Aladdín að vera svo vænan og lyfta steininum, hann væri orðinn of gamall og máttvana til að gera það sjálfur.
Aladdín gerði það og stökk svo ofan í holu sem steinninn hafði falið.
Nú sagði ókunni maðurinn “gangtu niður göngin, alveg að enda, þar muntu sjá demantaskóg svo langt sem augað eygir. Demantana sem vaxa á greinunum máttu týna og eiga eins marga og þú getur borið en er þú gengur eftir rauðleita stígnum muntu sjá að eitt tréð hefur holu í bolnum. Gangtu að því tré og náðu í ketil sem þar er. Unnusta mín sáluga gleymdi honum þarna eitt kvöldið er við fórum á stefnumót, okkar síðasta stefnumót.”
Ókunni maðurinn lét eitt tár renna niður vinstri kinn en hélt þá áfram “það mundi gleðja mig alveg óskaplega mikið ef þú gætir náð í ketilinn fyrir mig, því hann er það eina sem ég á frá henni unnustu minni sálugu, eina minningin mín um hana.”

Aladdín hét honum því. Er hann hafði gengið göngin á enda varð honum starsýnt á það sem hann taldi að gæti ekki verið neitt annað en eilíf hamingja og yfirnáttúruleg fegurð. Demantarnir voru hverjir öðrum fegurri og hann var kominn með fullt fangið þegar hann loks kom að stóra trénu með holunni á bolnum. Inní holunni var ketillinn, hann var lítill, ljótur og skítugur. Aladdín var sáttur með hlutskiptin, stakk katlinum í vasann og gekk til baka. Þegar hann var kominn að gatinu við hinn enda gangsins kallaði hann á ókunna manninn, bað hann að hjálpa sér upp því hann var eiginlega með fullt fangið af demöntum. Ókunni maðurinn æpti á Aladdín um að láta sig fá lampann undir eins.
“Lampann?” Spurði Aladdín undrandi. “Er þetta ekki ketill?”
“Skiptir engu.” Sagði ókunni maðurinn og varð enn reiðari. “Láttu mig fá lampann eða …”. Hann gat ekki klárað setninguna. Hann vissi að honum hefði mistekist. Aladdín mundi aldrei láta hann fá lampann svo hann henti flata steininum yfir gatið aftur (já hann gat það sko alveg sjálfur) því ef Aladdín mundi segja til hans væri úti um hann. Hann var einhvers konar glæpamaður, en hann kallaði sig galdramann.

Í tvo daga rölti Aladdín um demantaskóginn með hvorki vott né þurrt, eða jú, hann hafði hugsanir sínar og nóg af þeim. Honum hafði aldrei gefist svona tími til að hugsa svona mikið. svona nokkuð hafði honum ekki dottið í hug að gæti gerst, hann las aldrei bækur, hvað þá ævintýrabækur.

Framhald í næstu viku…

%d bloggers like this: