BASIC LÍFFRÆÐI

Rykið í hálsinum mínum fer ekki, sama hvað ég reyni að hósta og hósta og hósta, hósta svo mikið að mig byrjar að svima og svo fæ ég hausverk. Í hverjum andadrætti dreg ég inn í líkama minn lúkufylli af óþæginlegu og óheilbrigðu ryki sem fer aðeins eina leið, inní mig.

Rætur ryksins eiga upptök sín í hálsinum mínum, það myndast þar vegna kjörinna aðstæðna, samspil rétts rakastigs og sýrustigs varð þess valdandi að líkami minn ákvað að gera tilraunastarfsemi ámyndun óæskilegs ryks. Þessi líkami minn samræmir sér ekki, hann er í endalausum mótþróa við allt sem er, ekki bara mig heldur sjálfan sig líka og allan heiminn; það engin ástæða til að draga úr staðreyndunum. Líkama mínum er alveg sama hvað aðrir segja við þessu því það er ég sem er viðtakandinn. Það er ég sem fæ öll skotin, ég fæ að heyra þær hugmyndir sem fólk hefur á mér, um að ég sé rebel og veikur líkami. Ég er ekki líkami minn, ég er ég og líkami minn er líkami minn, þannig er það!

Heilinn á mér, eða öllu heldur einstök boðefni sem þar finnast, eru heldur ekki í góðu sambandi við mig. Þessi boðefni vilja stjórna mér og þau fara létt með það, alveg sama hversu mikið ég reyni að berjast á móti með lyfjum, réttu matarræði og mikilli hreyfingu og útiveru, hlátri og gleði í góðu lífi. Þetta er endalaus barátta á milli mín og boðefnanna sem vilja meina að ég sé góður hýsill fyrir ADHD. ADHD er ekki neitt sem neinn ætti að óska sér og ég óska svo sannarlega engum að vera með það. Auðvitað er hægt að halda því niðri en það er ekkert meira en það. Ef líkaminn þinn segir þér að þú sért með ADHD þá verðuru bara að gjöra svo vel og lifa með því.

Maginn minn er líklega misskilinn. Hann gerir meira úr sér en hann ætti að gera, hann er ekki eins stór og hann þykist vera að utan verðu. Hann er í afneitun. Auk þess er hann í fílu við heilann sem þykist vita betur en maginn sjálfur hversu mikið ég ætti að borða í hvert skipti. Heilinn segir mér að ég sé mjög svöng og í hvert sinn sem ég fer að verða svöng og fæ mér ekki að borða, þá setur hann í fimmta gír og sendir þessa líka rosalegu hungurtilfinningu um allan líkamann þannig að hann lamast næstum. Það er bara eins gott fyrir mig að ég fái mér að borða strax, um leið og líkaminn finnur fyrir minnstu tilfinningu um að ég gæti mögulega verið soldið svöng. Maginn hins vegar vill ekki fá mikið magn í sig í einu þrátt fyrir ákafa heilans sem segir mér að setja mikið á diskinn. Ég og skynsemi mín fáum einstaka sinnum tækifæri til að taka höndum saman og taka völdin, en það líður yfirleitt ekki á löngu þar til heilinn og líkaminn byrja á uppreisn gegn okkur.

Heilinn minn er með mér í liði gegn hálsinum mínum, við kærum okkur ekki lengur við þetta bansetta ryk. Við viljum fara út að hlaupa, við viljum lyfta hlutum og byggja upp þrek og styrk. Fæturnir mínir og axlirnar eru hins vegar ekki alveg nógu spennt fyrir þeim uppátækjum og hreint út sagt valda mér meiðslum ef ég reyni of mikið á þau. Það er aðallega vinstri öxlin og hægri fóturinn sem beita mig slíku ofbeldi en vinstri fóturinn tekur stundum þátt í þessum látalátum samlima sinna en annars er hann er ósköp rólegur karakter, kannski vegna þess hve mikið ég sit á honum.

%d bloggers like this: