Brauðið

Hún sá hann labba niður Laugarveginn. Það var sunnudagur og hann var með sixpensarann sinn á höfðinu. Hann leit vel út en hann leit ekki við henni. Þau höfðu verið vinir í stuttan tíma en á þessum stutta tíma höfðu þau tengst mjög vel, að hún hélt. Þau eyddu mörgum klukkustundum í að ræða um heima og geyma. Þau töluðu oft á dag í síma og fóru nokkrum sinnum niðrá tjörn til að gefa öndunum brauð sem þau fengu í bakaríi sem var staðsett á vel leyndum stað niðrí bæ.

Þennan sunnudag var hún á leiðinni niðrá tjörn til að gefa öndunum brauð en um leið og hún kom auga á hann varð henni bilt við og hún reyndi að hylja andlit sitt með treflinum. Það virkaði. Hann leit ekki við henni. Hann sá hana ekki. Þegar “hættan” var liðin hjá hélt hún áfram leiðar sinnar, hún gekk upp Laugarveginn þar til hún var komin að Hlemmi. Þá áttaði hún sig á því að hún hafði farið í ranga átt. Mikið ofboðslega skammaðist hún sín, sérstaklega af því að hún hafði leift draumórum sínum að stjórna ferðum sínum svona langt. Hún var hjá Prikinu þegar hún byrjaði ógöngu sína.

Af þrjósku og útaf gömlum vana staulaðist hún aftur niður Laugarveginn en beygði til vinstri hjá Prikinu. Þaðan gekk hún nokkur skref áður en hún beygði aftur til vinstri og svo hægri, hægri, vinstri og hægri. Þar var bakaríið falið.

Það er gaman að segja frá því en þetta bakarí er fjölskyldufyrirtæki og búið að vera starfrækt í hartnær 200 ár. Jæja, hún fer inn og biður um brauð en henni til mikillar óánægju segir sæti afgreiðslustrákurinn að búið sé að ná í brauðið. Utan við sig og með angist á milli tannanna haskar hún sér út og niður bakaríströppurnar. Hún hrasar næstum í brusuganginum sem verður til þess að hún öskrar út í loftið.

Aldrei þessu vant var gæsamamma einmitt að ganga framhjá henni, í þessum töluðu, eða öllu heldur öskruðu orðum, með litlu gæsabörnin sín. Gæsinni brá svo að hún beit vinkonu okkar, gæsabörnin misstu jafnvægið, rúlluðu fram yfir gangstéttabrúnina og útá götu. Þetta var ófremdarástand og ekki sjón að sjá hana þegar hún hafði áttað sig á því hvað öskrið hafði slæm áhrif á nærumhverfið. Hún reyndi að bæta um betur og var að teygja sig í fyrsta ungann, til að hjálpa honum uppá gangstétt, þegar gæsamamman beit hana aftur. Í hugsunarleysi sparkaði hún kröftuglega í gæsamömmuna en sá að sjálfsögðu mikið eftir því um leið og hún fann fótinn fara á kaf í gæsamömmubringuna.

Í öngvum sínum hljóp hún niður að tjörn með tárin í augunum. Það hafði alltaf haft róandi áhrif á hana að sitja á bekknum við tjörnina og fylgjast með fuglalífinu sem þar var.

Á örskotsstundu var hún komin niður að tjörn og í bræðiskasti var hún nærri búin að henda sér útí, líklega til að kæla bræðina sem hafði undið uppá sig síðastliðin klukkutíma, eða frá því að hún sá hann. Áður en hún náði að stinga sér til sunds í skítugasta vatni landsins greip einhver í handlegginn á henni. Henni var ekki skemmt og ætlaði hún svoleiðis að berja hverja einustu tönn út úr kvikindinu sem dirfðist að bjarga henni frá mestu niðurlægingu íslandssögunnar. Hún kreppti hnefann, þrýsti augabrúnunum niður, eins langt niður og hún mögulega gat, hélt niðrí sér andanum, spennti vöðvana í þeirri hendi sem ekki hafði verið gripið í og hún lét vaða. Hendin fór á fleygi ferð, beina leið, eða hálfbogna leið í átt að helvítis bjargvættinum. Helvítis hetjan og bjargvætturinn greip í krepptann knefa hennar og togaði hann til sín þannig að þau voru með andlitin uppí hvort öðru.

Þetta var hann. Það var hann sem náði í brauðið.

%d bloggers like this: