Ekki vera hundur

Það var einu sinni hundur sem átti sér draum. Draumurinn var að ferðast um heiminn svo hundurinn lét sér nægja að horfa á sjónvarpið á meðan hann beið. Draumurinn ætlaði að koma heim… einhverntíman. Draumurinn var tík.

Vikur, mánuðir og ár liðu. Draumurinn lét ekki heyra í sér, lét ekki sjá sig, skrifaði ekki eitt einasta póstkort.

Hundurinn var að verða verulega þunglyndur og vonlítill þegar síminn hringdi. Síminn hringdi svo kröftuglega að rykið sem safnast hafði á tólinu þyrlaðist upp og þyrlaðist svo meira og svo meira inní alla íbúðina, sem hundurinn bjó í. Það var ekki aðeins þannig að hundurinn var kominn með slæmt hjarta eftir allt sjónvarpsglápið og fór þar af leiðandi í hjartastopp við símhringinguna (þá sjaldan sem hringdi hjá honum) heldur fór rykið inní þefholur hans. Rykið settist þar að sem varð til þess að þegar hundurinn komst úr hjartastoppinu eftir hálftíma eða svo (kannski var það korter, eða tvær mínútur, ég veit það ekki, ég var ekki á staðnum. Enginn var á staðnum) að þefholurnar stífluðust, rykið í bland við horið myndaði froðukenndan viðbjóð, ljósgulan að lit með bláum dílum. Þessi froða stíflaði öndunarveginn og ekki gat hann farið að anda með rassgatinu núna, eftir svona langan tíma. Hann var löngu dottinn úr æfingu. 

Það borgar sig ekki að vera hundur.

%d bloggers like this: