FRAMHALD ALADDÍNS

Þegar við skildum við vin okkar, hann Aladdín, í síðustu viku hafði hann ráfað stefnulaust um leynda neðanjarðar demantaskóginn í tvo daga. Núna fjórum dögum síðar ákvað sögumaður að gefa honum tækifæri lífsins og Aladdín hrasaði um stein með þeim afleiðingum að lampinn skaust úr vasa hans og skoppaði nokkra metra frá honum. 
Aladdín sem var vanur að fá á sig skrámur veitti því enga eftirtekt, heldur stóð upp og náði í lampann sem var orðinn vel skítugur.

Þetta kann að hljóma undarlega en lampinn var eina tenging hans við heiminn að ofan, fyrir utan larfana sína sem hann kallaði fötin sín. Honum þótti kannski ekki vænt um lampann sem slíkan en hann hafði samt einhverja merkingu fyrir honum svo hann þurrkaði af lampanum í hasti.

Er Aladdín var hálfnaður með verkið tók hann eftir því að reikur lak úr stútnum. Lampinn hafði ekkert hitnað svo það var útí hött að álykta sem svo að reikurinn stafaði af eldi en aðstæðurnar voru þvert á móti raunhæfar. Aladdín opnaði lampann og út kom andinn! Jeij!

Aladdín og andinn urðu strax bestu vinir. Aladdín sagði frá öllu sem vert var að segja frá um lífið uppá yfirborðinu og andinn hlustaði af miklum áhuga. Þá skorti hvorki vott né þurrt. Enda andinn alveg rammgöldróttur.

Skyndilega mundi andinn að hann gæti ekki bara galdrað, heldur bar honum skylda til að uppfylla þrjár óskir Aladdíns. Eins furðulega og það kann að hljóma hafði Aladdín einmitt hugsað mikið um það á meðan hann var fastur þarna um óákveðinn tíma, hvers hann mundi nú óska sér ef hann fengi akkúrat bara tvær óskir. Tilviljun? Örugglega ekki.

Fyrsta óskin var að komast uppá yfirborðið.
Önnur óskin var að fá mikinn mat með fræjum sem hann gæti notað til að sá og þannig fá meiri mat því nú vildi hann verða sjálfstæður og ekki uppá aðra kominn.
Þriðja óskin var … erfiðari… eitthvað sem honum þótti einstaklega skemmtilegt, eins og að … hann óskaði sér heitast af öllu að eignast gott reiðhjól.

Reiðhjólið hugsaði hann vel um og einn daginn hitti hann ungan mann á hans aldri, Abú, sem hafði líka ánægju af reiðhjólum.
Þeir voru bestu vinir í marga mánuði en urðu að sjálfsögðu kærustupar fyrir rest. Foreldrar Abús og mamma Aladdíns vissu ekki af því fyrr en þeir höfðu verið saman í rúmt ár. Þeir vildu nefnilega reyna á sambandið áður en þeir opinberuðu það.

Allir urðu vinir.
Að sjálfsögðu.
Endir.
… þ.e.a.s á sögunni en Aladdín og Abú lifðu lengur en sagan nær. Þeir ættleiddu tvö börn sem eignuðust börn sem sum eignuðust börn sem eignuðust líka börn sem eru á lífi í dag.

%d bloggers like this: