KRAKKAKVIKINDIÐ OG BJEVÍTANS MÚSIN

Ég vaknaði í morgun gersamlega útúr því. Það fyrsta sem ég geri þegar vekjaraklukkan vaknar klukkan átta er að drepa hana og drífa mig svo aftur beint uppí rúm og undir sæng því ég hef sannfært mig um, að geri ég annað en það muni ég detta með hökuna eða vinstra kinnbeinið á horn á borði. Þvílíku vildi ég ekki lenda í svona snemma morguns. Auk þess var ég ekki ein heima, einhver hefði getað heyrt í mér detta og komið mér til aðstoðar. Þá hefði sá hinn sami séð að ég var svefndrukkin. Reyndar var enginn heima en ég var samt sannfærð um það.

Sem betur fer komst ég lífs af við vekjaraklukkuátakið. En það mátti engu muna. Er ég var uppí rúm komin ríghélt ég svo fast í sængina að mig verkjaði undir neglurnar. Nokkur tími leið og ég féll aftur inní draumaheim. Því miður. Eða hvað… ég er ekki viss.

Skyndilega var ég komin inní þriggja hæða einbýlishús sem pabbi var að láta byggja. Húsið var aðallega úr timbri, þetta var gamaldags hús, svona eins og pabbi gamli. Pabbi er reyndar ekki úr timbri en hann er doldið gamaldags. Húsið var fokhelt en það lofaði góðu. Í draumnum var ég svo þreytt að ég vissi varla að ég væri í draumi. Í húsinu voru rúm og kojur, uppábúin hvítum rúmfötum. Rúmin voru djúsí, ég lagðist í eitt. Ég valdi mér stæsstuhæsstu kojuna á efstu hæðinni því það var lítil fjagra eða fimm ára stelpa að elta mig út um allt, eins og ég væri uppáhalds fólkið hennar. Hún var bara búin að ákveða það að ég væri besta vinkona hennar og að hún væri líka besta vinkona mín. Ótrúlega pirrandi lítill krakki. Hún var með fléttað tígó og í ljótum smekkbuxum.

Krakkabjáninn fann mig ekki í þessarri koju og fór að dunda sér við að lita. Þvílíkur léttir, í smá stund, þar til pabbi kom til að biðja mig um aðstoð. Ég gat svosem alveg aðstoðað hann svo að ég gerði það en þá sá litla stelpukvikindið hvar ég hafði verið og fór að spurja mig alls konar leiðinlegra spurninga eins og hvar ég hefði verið þó hún vissi klárlega hvar ég hefði verið. Það komu fleiri spurningar. Þær voru allar pirrandi og þreytandi.
Hvaðan kom þessi krakki?

Ég kláraði að hjálpa pabba og afsakaði mig til að fara á salernið sem var hálfklárað og þegar ég segi hálfklárað, þá á ég við veggina. Þeir voru hálfkláraðir. Þeir sem gengu um á neðri hæðinni voru í augnhæð við gólfflötinn á salerninu. Þetta voru skrítnar hæðir. En þar sem fólk gekk um á neðri hæðinni, þar var gatið á veggnum svo fólk á neðri hæðinni horfði upp til manns þegar maður sat á klósettinu. Einhvernvegin var það ekkert tiltökumál þarna.

Og vegna þess að húsið var ekki alveg nógu lokað þá hafði lítil sæt mús komið sér fyrir í salernisskápunum. Hún kom annað slagið út á salernisgólfið, aðallega þó þegar maður sat á klósettinu og alltaf þegar maður var að borða brauð í engum sokkum. Djöfull fór það í taugarnar á mér. Auðvitað hætti ég að borða brauð á klósettsetunni í engum sokkum en músin hélt samt áfram að koma og sniglast í kringum verðmætu tærnar mínar. Ég var alveg viss um að einn daginn mundi músin halda að tásurnar mínar væru brauðbitar. Ég meina, hver mundi ekki halda það?

Músin straukst við fætur mínar í hvert sinn sem ég settist á klósettið, sem var reyndar bara tvisvar sinnum áður en ég vaknaði upp frá þessum hálvitalega draumi.

Þegar ég vaknaði var ég bullsveitt og lafmóð. Mér leið ekki vel og ég prísaði mig sæla að nú væri pabbavika. Ég fór inná bað til að pissa en ég hitti réttsvo á klósettsetuna. Undarleg upplifun og ekki mjög notaleg lending. Næst fór ég inní eldhús, þegar ég var búin að sturta niður og þvo á mér hendurnar auðvitað!! Það var erfitt að lyfta litla pottinum og koma honum fyrir á hellunni, rosaleg áskorun að ná í haframjölið ofan í skúffu en vatnið var ekkert svo þungt. Hafragrauturinn var ógeðslega góður! Sá besti sem ég hafði smakkað frá upphafi…

%d bloggers like this: