LÍFIÐ OG HUNDURINN

Í dag fór ég út að labba með húsbónda mínum, ég kalla hann Lífið því hann er mér allt. Ég hef enga hugmynd um hvað hann heitir í raun og veru því ég er bara hundur. Lífið kallar mig ýmsum nöfnum en ég veit ekki heldur hvaða nöfn það eru því ég er bara hundur. Það fer eftir því hvernig Lífið kallar á mig, hvernig ég bregst við. Hvernig tónninn er, hvernig munnsvipurinn er og hvernig og hvert augun líta.

Þegar tónninn er eins og þruma, munnsvipurinn eins og títuprjónn og augnum dimm og ljót, þá á ég ekki von á góðu. Mér finnst leiðinlegt að tala um það svo ég ætla ekki að tala meira um það.

Annar svipurinn sem ég ætla að útskýra er matarsvipurinn. Þá er tónninn venjulegur, munnsvipurinn er líka venjulegur og augun eru bara augu og snúa ekki til mín. Lífið kallar á mig, ég kem hlaupandi og sé Lífið svoleiðis. Ekkert. Það er ekkert í gangi og þá veit ég að Lífið vill ekkert með mig hafa. Það er komin matur í skálina mína. Þá veit ég að dagurinn er að byrja.

Ef tónninn er eins og tónlist, munnsvipurinn eins og undirskál full af nammi og augun eru kreistuleg og snúa að mér þá er ég í góðum málum. Þá kem ég hlaupandi, dilla skottinu eins ákaft og ég get, því ég kann ekki að brosa með munninum, né augunum, ég er bara hundur. Yfirleitt í svona aðstæðum á ég von á klappi, klóri, óskiljanlegu spjalli og svo í kjölfarið fæ ég að fara út í göngutúr. Það er best. Þá veit ég að dagurinn er hálfnaður.

Göngutúrarnir eru samt ekki alltaf dans á rósum. Ó nei! Aldrei fæ ég að velja leiðina. Lífið fer alltaf sömu leiðina, alltaf sama hringinn. Hring eftir hring. Nei, við förum alltaf bara einn hring á dag. Ég þefa af öllu sem ég get. Öllu sko! Ég vil læra allt og sjá allt og helst gera allt og fara allt en Lífið kemur oft í veg fyrir það.

Í göngutúrnum í dag langaði mig rosalega, rosalega, rosalega til að þefa af einni þúfunni, hún var alveg við gangstíginn svo það er ekki eins og ég hefði þurft að fara einhverja krókaleið. Ég hljóp á undan Lífinu og þefaði eins og ég ætti lífið að leysa, þefaði og þefaði og þefaði. Lífið nálgaðist en ég var ekki búinn að þefa nóg.

Ó, nei Lífið nálgaðist jafnt og þétt.

Þefaði og þefaði.

Lífið fór framhjá mér. Lífið hélt áfram en ég var ekki tilbúinn til að sleppa þúfunni. Ég þurfti að rannsaka þessa þúfu aðeins betur. Lífið var komið töluvert á undan mér og taumurinn var orðinn mjög langur og svo kom það, taumurinn var ekki lengri. Lífið kippti í ólina, ólin þrengdist um hálsinn. Lífið beið ekki eftir mér. Lífið hélt bara áfram, alveg sama hvað ég barðist og vældi. Lífið skildi mig ekki. Ég þurfti bara smá auka tíma, það var allt og sumt….

… bara smá auka tíma…

Nei, Lífið beið ekki eftir mér. Lífið hélt áfram með hringinn. Ég var ekkert svo ánægður með Lífið þá. Mér var illa við Lífið. Lífið sökkaði. Ég hataði Lífið.

Þegar við komum heim hélt Lífið áfram með daginn eins og ekkert hefði gerst. Sjálfur lagðist ég örmagna á teppið undir stofuborðinu, það var teppið mitt. Ég sofnaði.

Mig dreymdi að ég væri úti í garði, það var sumar og sól, gott veður. Ég lá fyrir framan hundahúsið mitt og var að naga beinið frá sunnudagslærinu. Dagurinn var fullkominn en ég vissi ekki að mig var að dreyma þar til lætin byrjuðu. Hvað var Lífið nú að gera? Lætin jukust og ég rankaði við mér. Lífið var að ryksuga. Gat nú verið. Það var ekki fyrr en ryksugan var komin nánast upp við eyrað á mér að ég rankaði almennilega við mér og stökk á fætur, rak hausinn uppí stofuborðið og vissi ekki í hvorn fótinn ég ætti að stíga. Ég er með fjóra fætur því ég er hundur.

Lífið var ekki vinur minn í dag. Ég hataði lífið bara meira og meira eftir því sem leið á daginn. Dapur í bragði, sérstaklega yfir því að geta ekki tjáð mig almennilega, því ég er bara hundur, skundaði ég inní þvottaherbergi og kom mér fyrir á óhreina þvottinum sem lá á gólfinu og beið þess að komast í þvottavélina. Óhreini þvotturinn lyktaði ekki vel en það var heitt og notalegt inní þvottaherberginu. Ég sofnaði aftur og í þetta sinn dreymdi mig að ég gæti talað við Lífið. Við áttum mjög langt og ánægjulegt samtal og í lokin náði ég að sannfæra Lífið um að gefa mér smá auka tíma. Næst þegar ég og Lífið færum einn hring þá fengi ég auka tíma.

Lífið elskaði mig.

Það var meira að segja góð lykt í þessum draumi, kjötlykt, baunalykt, kartöflulykt. Lyktin varð sterkari og sterkari, svo sterk að ég vaknaði. Djöfullinn sjálfur, af hverju þarf ég alltaf að vakna uppúr góðu draumunum?
Hey, lyktin var ekki í draumnum. Hún var enþá hér, hún var í húsinu. Lífið var að elda sunnudagslærið. Ó boy, ó boy hvað ég elska Lífið.

Lífið er besti vinur minn. Ég gæti ekki verið heppnari með Lífið.

%d bloggers like this: