Nú verð ég bara að segja frá

Það er eitt sem ég einfaldlega verð að tjá mig um. Ég verð að tala um þetta því það er deginum ljósara að ég get með engu móti haldið þessu lengur fyrir sjálfa mig. Þetta hef ég engum sagt, ekki einu sinni bestu vinkonum mínum. Það er nefninlega þessi maður sem ég þekkti. Töluvert eldri en ég og vel að sér í sögu. Hann var mikill matmaður, hafði víst farið á fjöldamörg námskeið í gegnum árin og það get ég sagt ykkur, hann kunni sko að gera vel við bragðlauka mína og hann elskaði það.

Hann hafði brúnt hár, doldið dökkt. Brún ákveðin augu sem hvísluðu ómeðvitað til mín “ég elska þig” í hvert sinn sem hann horfði á mig. Þessi maður var vel á sig kominn, enginn afreksmaður í íþróttum en það var alveg augljóst að hann hugsaði vel um líkamann. Úff, tilhugsunin um þennan líkama. Ó hversu fallegur sem hann var. Almáttugur! Jæja, jæja, hann var líka með gott sjálfstraust, var doldið mikið egó, svona sirka um það bil jafn mikið egó og ég sjálf. Við gátum horft lengi í augun á hvort öðru án þess að segja nokkuð. Stundum vorum við að brasa eitthvað í sitthvoru lagi, stundum að borða morgunmat. Stundum brostum við en svo var það stundum að við bara störðum og enginn vissi hvort við vorum í fílu eða bara rugluð.

Við höfðum kynnst í vinnunni. Hann átti fyrirtæki sem sá um að gera við hluti, bíla, hjól, mublur og fleira og ég vann hjá honum. Vinnustaðurinn var góður og mórallinn í toppstandi. Samband okkar hafði engin áhrif á vinnuna eða hitt starfsfólkið. Ég var á venjulegum launum og vann vinnuna alveg eins og ég gerði áður en við fórum að stinga nefjum okkar saman. Jú, allt’í læ. Það kom alveg mögulega fyrir, annað slagið. En mjög sjaldan. Alls ekki oftar en þrisvar á dag, að hann kom niður á verkstæði og kippti mér með sér bak við hurð eða skáp eða hvað sem var næst okkur til að smella á mig einum kossi. Það var ekki fyrr en við höfðum verið saman í tvö ár að við gerðumst opinbert par. Þá var allt óöryggi farið sem er yfirleitt í upphafi hvers sambands og við vorum ástfangin og sátt með lífið.

Það sem er mér minnistæðast í þessu sambandi okkar er einn koss. Hann var alveg dúndur. Það var föstudagur og við höfðum ákveðið að fara í sumarbústað yfir helgina, spáin var góð og það hafði verið mikið að gera á verkstæðinu þessa viku sem var að líða svo afslöppun var vel þegin. Klukkan var að ganga fjögur. Ég hafði fengið leifi til að fara snemma heim þennan dag til að pakka og gera mig til fyrir helgina. Þessi helgi átti að vera mér ógleymanleg. Hann hafði verið að undirbúa eitthvað seinustu daga en hann vissi ekki að ég vissi það. Jæja, já klukkan er að ganga fjögur, það er stemming á verkstæðinu, tónlistin var sett í botn og starfsfólkið (og ég) dillaði sér í talk við tónlistina og sumir sungu með. Þá kemur fallegi maðurinn minn niður með brosið allan hringinn, gengur rakleiðis til mín eins og hann tæki ekki eftir neinu öðru í umhverfinu. Hann tók utan um mig, ein hendin á bakið og hin studdi við höfuðið, svo hallaði hann mér afturá bak og kyssti mig. Mig hafði alltaf dreymt um að verða kysst þannig en aldrei sagt neinum. Þetta var fullkominn endir á fullkomnum vinnudegi.

En svo vakna ég!

Hvernig í ósköpunum á ég að geta átt góðan dag eftir svona draum og miðað við hvernig veðrið er í dag? Hvers á maður að gjalda? Hvað hef ég svosem gert nokkrum manni? HVERS VEGNA ÉG?!?!

Það er á svona stundum sem ég er þakklát fyrir athyglisbrestinn minn… ég fer auðveldlega úr einu í annað.

%d bloggers like this: